Færslur: 2009 Júlí

29.07.2009 17:45

Tryggvi Björnsson og Grásteinn fara ekki á HM09

Grásteinn frá Brekku hefur forfallast vegna meiðsla, virðist sem svo að hann hafi fengið smávægilegt sár á  framfót, klárinn var í hryssum þegar slysið átti sér stað.  Í stað Grásteins fer Erlingur Erlingsson á Bjarma frá Lundum ll en hann stóð annar á eftir Grásteini á Fjórðungsmóti Vesturlands.

23.07.2009 17:37

Æskulýðsmót Norðurlands

Æskulýðsmót Norðurlands

Æskulýðsmót Norðurlands verður haldið á Melgerðismelum helgina 24. til 26. júlí. Þrautabraut, létt keppni, reiðtúr, grill og margt margt fleira. Skráning föstudaginn 24. júlí kl 18.00. Frítt inn, frí hagaganga og frítt tjaldstæði.
FRÁBÆR SKEMMTUN FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNA.






22.07.2009 09:33

Tryggvi Björnsson valinn í landslið Íslands í hestaíþróttum

Einar Öder Magnússon landsliðseinvaldur hefur tilkynnt landslið Íslands í hestaíþróttum sem keppir á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Sviss dagana 3.-9. ágúst.


Liðið er skipað 19 einstaklingum og þar af eru 4 núverandi heimsmeistarar sem öðlast sjálfkrafa keppnisrétt og eiga þar með tækifæri á að verja titla sína.

Liðið er þannig skipað:
Íþróttaknapar
Jóhann Skúlason, núverandi heimsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum, keppir á Hvini frá Holtsmúla.
Bergþór Eggertsson, núverandi heimsmeistari í 250m skeiði og fljúgandi skeiði 100m, keppir á Lótusi frá Aldenghoor.
Þórarinn Eymundsson, núverandi heimsmeistari í fimmgangi og samanlögðum fimmgangsgreinum, keppir á Krafti frá Bringu.
Sigursteinn Sumarliðason, núverandi heimsmeistari í gæðingaskeiði, keppir á skeiðhryssunni Ester frá Hólum.
Snorri Dal keppir á Oddi frá Hvolsvelli.
Daníel Jónsson keppir á Tóni frá Ólafsbergi.
Þorvaldur Árni Þorvaldsson keppir á Mola frá Vindási.
Sigurður Sigurðarson keppir á Herði frá Eskiholti.
Erlingur Ingvarsson keppir á Mætti frá Torfunesi.
Haukur Tryggvason keppir á Baltasar from Freyelhof.
Rúna Einarsdóttir-Zingsheim keppir Frey vom Nordsternhof.
Linda Rún Pétursdóttir keppir á Erni frá Arnarsstöðum.
Valdimar Bergstað keppir á Orion frá Lækjarbotnum.
Teitur Árnason keppir á Glað frá Brattholti.


Kynbótaknapar
Tryggvi Björnsson sýnir Grástein frá Brekku í kynbótadómi í flokki 7v og eldri stóðhesta.
Þórður Þorgeirsson sýnir Kjarna frá Auðsholtshjáleigu í kynbótadómi í flokki 6v. stóðhesta.
Guðmundur Björgvinsson sýnir Sæfara frá Hákoti í kynbótadómi í flokki 5v. stóðhesta.
Gunnar Hafdal sýnir Þrumu frá Glæsibæ 2 í kynbótadómi í flokki 7v og eldri hryssna.
Jóhann Skúlason sýnir Gerplu frá Blesastöðum 1a í kynbótadómi í flokki 6v hryssna.
Erlingur Erlingsson sýnir Stakkavík frá Feti í kynbótadómi í flokki 5v hryssna.

Landsliðseinvaldi til að aðstoðar eru þeir Anton Páll Níelsson og Sigurður Vignir Matthíasson. Dýralæknir íslenska landsliðsins er Susanne Braun.

Líkt og landsliðseinvaldur greindi frá í dag er hann kynnti liðið er hér um að ræða gríðarsterka og keppnisreynda einstaklinga sem mikils er vænst af.
Heimild: www.lhhestar.is

21.07.2009 20:32

Barna- og unglingamót FRESTAÐ


Barna- og unglingamót
 

æskulýðsnefndar Neista
sem vera átti 
á Blönduósvelli 25. júlí 
er frestað

til 15. ágúst nk.

21.07.2009 20:22

Fleri myndir frá fánareið

Elín Jónsdóttir var svo vinsamleg að senda myndir af fánareiðinni sem búið er að setja inn. Færum við henni bestu þakkir fyrir.
Nokkrar myndir voru teknar af huna.is og settar í safnið og einnig tvær myndir frá Jóni Sig.
Þökkum einnig fyrir þær.

18.07.2009 22:35

Setning Húnavöku

Það var flottur hópur Neistafélaga sem reið frá Arnargerði niður á torg þar sem setning Húnavöku sem og önnur fjölskyldudagskrá fór fram í dag.
Fyrir hópnum fóru fánaberarnir Harpa, Karen og Stefán en á eftir þeim komu um 25 manns, börn og fullorðnir. Með í för voru einnig þeir Arnar Þór bæjarstjóri og  Valgarður forseti bæjarstjórnar en bæjarstjórinn setti svo hátíðna þegar niður á torg var komið.
Ferðin gekk vel og stilltu knapar og hestar sér upp á torginu, hátiðin var sett og síðan var Árbrautin riðin til norðurs og Húnabrautin til baka og aftur upp í Reiðhöll.
Frábærlega skemmtilegt og flott og fengu hestar og menn, þó aðalega hestar, þónokkra athygli gesta þar sem þeir stóðu á meðan hátíðn var sett.




Myndir eru komnar í albúm en ef einhver lumar á skemmtilegum myndum sem setja má hér inn þá endilega senda þær á [email protected]


06.07.2009 23:35

Uppskeruhátíð hjá Knapamerki 1, 2 og 3

Æskulýðsnefndin hélt uppskeruhátíð fyrir krakkana í Knapamerkjum 1, 2 og 3  sunnudagskvöldið 5. júlí þegar Fjórðungsmótsfarar voru rétt komnir heim eftir skemmtilega ferð á FM.
Sibba og Sandra veittu þeim viðurkenningarskjal og einkunnir úr Knapamerkjunum. Einnig fengu þau Henson peysu merkta Neista og eldrauðan poka frá N1.
Hér er hópurinn með Sibbu og Söndru en eitthvað vantaði af krökkum enda ekki hægt að ætlast til að allir séu heima á sunnudagskvöldi í júlí
emoticon    



Þökkum þeim Sibbu og Söndru fyrir frábæra kennslu og krökkunum fyrir góða ástundun og skemmtilegt starf í vetur. Hlökkum til að sjá þau öll, bæði yngri og eldri á námskeiðum næsta vetur og vonandi Sibbu og Söndru að kenna emoticon

Myndir komnar í albúm.


06.07.2009 23:11

Unglingarnir okkar á Fjórðungsmóti

Unglingarnir okkar, þau Aron Orri, Agnar Logi, Elín Hulda, Harpa og Karen Ósk höfðu í nógu að snúast á Fjórðungsmóti og stóðu sig frábærlega á allan hátt. Það var ekki nóg að þau væru að keppa heldur tóku þau þátt í fánareið fyrir hönd félagsins og var þar afar glæsilegur hópur á ferð. Elín Hulda var reyndar að keppa í úrslitum daginn eftir á Móheiði og tók því ekki þátt í fánareiðinni en stóð sig frábærlega vel í úrslitum og varð 4. eins og áður hefur komið fram.


Karen, Aron, Harpa og Agnar

Framkvæmdanefnd Fjórðungsmótsins vildi einnig að aðildarfélögin sendu 2-3 einstaklinga til að veita verðlaun á mótinu og stjórn Neista kom að máli við þessar hressu stelpur og þær voru sko meira en til í það. Frábærlega jákvæðar og skemmtilegar og þökkum við þeim öllum kærlega fyrir frábærlega vel unnin störf, bæði fyrir fánareið og verðlaunaveitingar. Flottur hópur sem við erum stolt af.


Elín, Harpa og Karen


Eiríkur Ingi sendi okkur (líka þessar) myndir sem voru settar í myndaalbúm og færum við honum bestu þakkir fyrir.
Gaman að eiga myndir af okkar fólki á Fjórðungsmóti.



05.07.2009 22:51

Afburða árangur Húnvetninga á Fjórðungsmóti á Kaldármelum.

Jóna Fanney Friðriksdóttir skrifar:

Á Fjórðungsmóti hestamanna sem haldið var á Kaldármelum á Snæfellsnesi dagana 1.-5. júlí komu fram um 350 hross úr 16 hestamannafélögum. Hátt í 3.000 manns sóttu mótið, þótti það afar vel heppnað og fór fram í blíðskaparveðri. 

Húnvetnsk hross og knapar stóðu sig afar vel á Fjórðungsmótinu.

Fjöldi efnilegra barna,unglinga og ungmenna úr Húnaþingi sýndu að þar eru knapar framtíðarinnar í hestamennsku á Íslandi á ferð. Þar var prúðmennska og falleg reiðmennska í fyrirrúmi.

Helga Una Björnsdóttir sýndi frábæra frammistöðu í flokki ungmenna og sigraði sinn flokk á Karitas frá Kommu með einkunnina 8,57.  Á mótinu hlaut Helga Una einnig reiðmenntunarverðlaun Félags tamningamanna fyrir glæsilegan árangur.  Helga Una er afar efnilegur knapi sem á bjarta framtíð fyrir sér.

Helga Una og Hljómur frá Höfðabakka

Annar efnilegur knapi, Elín Hulda Harðardóttir, keppti í A úrslitum í flokki unglinga á hryssunni Móheiði frá Helguhvammi II og lenti hún í fjórða sæti með einkunnina 8,33.

Elín Hulda og Móheiður

Fríða Marý Halldórsdóttir sýndi frábæra takta á Sóma frá Böðvarshólum í unglingatöltinu og eftir úrslit voru þau hnífjöfn hún og Konráð Axel Gylfason á Mósarti frá Leysingjastöðum II. Það var því riðinn bráðabani og lenti Fríða Marý í öðru sæti eftir bráðabanann.

Knöpum í fullorðinsflokki gekk einnig vel á Fjórðungsmóti.

Í B flokki gæðinga náðu þeir félagar Tryggvi Björnsson og Akkur frá Brautarholti fjórða sætinu með einkunnina 8,69. Gáski frá Sveinsstöðum og Ólafur Magnússon sýndu einnig góða takta og lentu í fimmta sæti með einkunnina 8,61 í B flokki gæðinga og Sindri frá Leysingjastöðum II og Ísólfur Líndal Þórisson vermdu áttunda sætið með 8,34 í einkunn í sama flokki.

Tryggvi Björnsson hafði í nógu að snúast á Fjórðungsmóti og sýndi enn og sannaði að þar er hörku reiðmaður á ferð.  Tryggvi sýndi fjölda afburða hrossa, þ.á.m. glæsigripinn Grástein frá Brekku sem hlaut hæstu einkunn í flokki stóðhesta 7 vetra og eldri á Fjórðungsmóti með einkunnina 8,54.


Tryggvi og Grásteinn

Í þriðja sæti í flokki 7 vetra stóðhesta og eldri var einnig Húnvetningur á ferð, Grettir frá Grafarkoti og var það Herdís Einarsdóttir sem sýndi Gretti.

Í flokki 5 vetra stóðhesta stóð efstur afburðagæðingurinn Kiljan frá Steinnesi með 8,59 í einkunn. Var hann ákaft hylltur af áhorfendum úr brekkunni.  Steinnesbóndinn, Magnús Jósefsson gerði það einnig gott í 4 vetra flokki stóðhesta og gæðingurinn hans Dofri frá Steinnesi lenti í öðru sæti í þeim flokki.

      
Kiljan frá Steinnesi                                                           Dofri frá Steinnesi


Steinnesbúið bætti enn um betur og var kosið besta ræktunarbú Fjórðungsmóts eftir sýningu átta ræktunarbúa á Kaldármelum.
  Var það mál manna að þar færi hver gæðingurinn á fætur öðrum frá fjölskyldunni í Steinnesi.  Sex gæðingar frá Steinnesi voru í sýningunni og hyllti brekkan ákaft hross og knapa eftir glæsilega sýningu.


Steinnes ræktunarbú

Ræktunarbúið Höfðabakki í Húnþingi vestra sem einnig tók þátt í ræktunarbússýningunni sýndi einnig glæsihross sín. Þar eru afar eftirtektarverð hross á ferð og brekkan lét vel í sér heyra þegar Höfðabakkahrossin riðu um völlinn.  Það verður spennandi að fylgjast með hrossunum frá Höfðabakka og Steinnesi á næstunni.

Höfðabakki ræktunarbú

Fjöldi annarra knapa en hér eru upptalin sýndu glæsihross á Fjórðungsmótinu og viðhöfðu fallega reiðmennsku og voru okkur til mikils sóma.

Húnvetningar mega vera afar stoltir af sýnu fólki eftir árangur þeirra á Fjórðungsmótinu á Kaldármelum 2009. 

Ég óska þátttakendum innilega til hamingju með árangurinn og hlakka til að fylgjast áfram með knöpum og hrossum úr Húnaþingi í náinni framtíð.


04.07.2009 22:02

Til hamingju Steinnes

Ræktunarbú FM: Glæsileg tilþrif og afburðahross frá Steinnesi

Átta bú sýndu hross úr ræktun sinni á Kaldármelum í dag .  Fimm búanna frá Vesturlandi, þ.e. Álftarós, Nýi bær 2, Skáney, Skjólbrekka og Stóri-Ás hafa áður sýnt fyrri Fjórðungsmótum á Vesturlandi en nýliðar í sýningu ræktunarbúa á Fjórðungsmóti í ár voru Höfðabakka (Húnaþingi vestra), Steinnes (Austur-Húnavatnssýslu) og Tunguháls II (Skagafirði). Sýningin fór fram í blíðskaparveðri og feikna skemmtileg stemning myndaðist í brekkunni. 

Fimmtán manna hópur undir handleiðslu Ágústar Sigurðssonar völdu ræktunarbú Fjórðungsmóts 2009.  Var hópurinn einróma um að ræktunarbúið Steinnes yrði fyrir valinu.

Mörg góð ræktunarbú tóku þátt í sýningunni  og allar voru sýningarnar skemmtilegar og kröftugar.  Glæsilegir gæðingar frá öllum ræktunarbúunum sýndu góð tilþrif.
 
Í hópnum frá Steinnesi var engan veikan blett að finna. Þar voru tómir snillingar og afrekshross á ferð, enda fagnaði brekkan ákaft þegar hópurinn reið um völlinn.


Kiljan frá Steinnesi, einn gæðinganna sem tók þátt í sýningu Steinneshrossanna
Kiljan frá Steinnesi, einn gæðinganna sem tók þátt í sýningu Steinneshrossanna

04.07.2009 11:22

Djásn frá Hnjúki þriðja

Djásn frá Hnjúki er 3. í flokki 7 vetra hryssna og eldri með einkunina 8,22
Ólga frá Steinnesi er 10. í flokki 5 vetra  hryssna með einkunina 7,98
Stefna frá Sauðanesi er 11. í flokki 5 vetra hryssna með einkunina 7,93


04.07.2009 11:03

Elín Hulda fjóðra í unglingaflokknum


Í morgun var keppt til úrslita í unglingaflokki og þar stóð Elín Hulda sig frábærlega, hún kom inn 7. úr forkeppni en gerði sér lítið fyrir og náði 4. sætinu með einkunina 8,33 sem er alveg frábært.

Innilega til hamingju með það Elín Hulda
emoticon


Elín Hulda og Móheiður á Landsmóti 2008

02.07.2009 20:02

Gáski frá Sveinsstöðum vann B úrslit í B flokki eftir hörkuspennandi viðureign

B úrslitum í B flokki gæðinga lauk rétt í þessu eftir hörkuspennandi keppni á milli tvíeykisins Gáska frá Sveinsstöðum og Ólafs Magnússonar annars vegar og Flygils frá Vestur-Leirárgörðum og Marteini Njálssyni hins vegar.  Gáski og Ólafur höfðu betur í viðureigninni og luku keppni með einkunnina 8,73.


Sæti       Keppandi           
1           Gáski frá Sveinsstöðum / Ólafur Magnússon        8,73   
2           Flygill frá Vestri-Leirárgörðum / Marteinn Njálsson    8,55   
3           Hrókur frá Breiðholti / Sigurður Sigurðarson        8,50   
4           Happadís frá Stangarholti / Mette Mannseth        8,39   
5           Gustur frá Stykkishólmi / Siguroddur Pétursson        8,37   
6           Ósk frá Þingnesi / Eyjólfur Þorsteinsson        8,34   
7           Leiftri frá Lundum II / Marjolijn Tiepen            8,33   
8           Ábóti frá Vatnsleysu / Snorri Dal            8,30  

02.07.2009 18:34

Kiljan og Dofri frá Steinnesi

Fordómar í 5 vetra flokki stóðhesta voru í dag og ber mönnum saman um að í þeim flokki sé að finna hvern glæsigripinn á fætur öðrum.  Efstur er Kiljan frá Steinnesi og hlaut hann 8,59 í einkunn.  Á eftir honum fylgir Orrasonurinn Uggi frá Bergi með aðaleinkunn 8,45.  Þriðja sætið og með einkunnina 8,27 er Möttull frá Torfunesi.
Hér má finna listann og eins og sjá má eru þarna afar áhugaverðir stóðhestar á ferð.

Dómar liggja einnig  fyrir í 4 ja vetra flokki stóðhesta í forkeppni á Fjórðungsmóti.  Efstur er Asi frá Lundum II með 8,41 í aðaleinkunn.  Næstur í dómi er Váli frá Eystra-Súlunesi I með 8,15 í einkunn og Dofri frá Steinnesi með einkuninna 8,13 er í því þriðja.

01.07.2009 19:40

Sindri og Gáski


Eftir forkeppni í B-flokki á Fjórðungsmóti eru þeir Sindri frá Leysingjastöðum II og Ísólfur Líndal Þórisson í 4. sæti með einkunina 8,41 og Gáski frá Sveinsstöðum og Ólafur Magnússon í 8. sæti með einkunina 8,38.
Gaman verður að fylgjast með þeim í úrslitum en úrslit úr forkeppni má sjá hér.



Flettingar í dag: 1040
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 229
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 428025
Samtals gestir: 50992
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 09:09:18

Vafraðu um

Eldra efni

Um hestamannafélagið Neista

Nafn:

Hestamannafélagið Neisti

Afmælisdagur:

1943

Heimilisfang:

540 Blönduós

Staðsetning:

Blönduós

Um:

Hestamannafélagið Neisti hefur sitt aðsetur á Blönduósi, en er félag hestamanna í Austur-Húnavatnssýslu.

Kennitala:

480269-7139

Tenglar

clockhere