31.10.2011 09:59

Lífið í Arnargerði


Það er töluvert líf í hesthúshverfinu Arnargerði en knapamerkjanámskeiðin eru farin af stað með bóklegum námskeiðum og nokkrir eru búnir að taka inn. Dyttað er að hesthúsum og hafa þessi tvö fengið andlitslyftingu í haust.

                

Þau Víðir Kristjánsson og Ragnhildur Haraldsdóttir hafa tekið hesthúsið við Reiðhöllina í Arnargerði á leigu og verða með starfsemi sína, tamningar og þjálfun, þar í vetur.
Víðir var á fullu við tamningar þegar fréttaritari leit þar við í vikunni, en þau eru aðallega með tryppi í frumtamningum. Þau taka keppnishrossin inn síðar en Víðir er greinilega eitthvað að þjálfa fyrir veturinn því hann segir á facebook síðu sinni um daginn: "Vann tölt og fjórgang í reiðhöllinni í dag með yfirburðum, því miður gleymdist að auglýsa mótið en góð stemming meðal keppenda engu að síður, stefni á gull og silfur í fimmgang sem hefst stundvíslega kl. 09.17 í fyrramálið...."

Víðir og aðstoðarkona hans með skjóttan úr Skagafirði.....


og þessi er frá Sauðanesi undan Tý frá Skeiðháholti.



Ragga var að gera hryssuna sína, Höttu sem er undan Ægi frá Móbergi og er á 6. vetur, klára fyrir útreiðartúrinn.



Bjóðum Víði og Röggu velkomin í hverfið og þeim Ragga og Söndru sem leigðu hesthúsið sl. 2 ár til hamingju með nýtt heimili í Eyjafirði en þau keyptu Hléskóga, rétt hjá Grenivík og fluttu þangað fyrir stuttu. Innilega til hamingju með það og bestu óskir um velfarnað á nýjum stað.


21.10.2011 16:45

Uppskeruhátíð  Hrossaræktarsamtaka V-Hún

og Hestamannafélagsins Þyts 2011


Verður haldin laugardagskvöldið 29.október í Félagsheimilinu á Hvammstanga.

Matur, gleði og gaman.

Þessi frábæra skemmtun hefst stundvíslega kl 20:30

 en húsið opnar kl 20:00 og það verður sko stemming.

 

Potturinn á Blönduósi sér um matinn og á boðstólnum verður:

Forréttur

Grafinn lax - Reyktur lax  - Sjávarréttapâté - Sveitapâté 

Pastarami piparskinka

Meðlæti

Hunangssinnepssósa - Hvítlauksdressing - Ferskt salat - Fylltar ólífur

Brauð og smjör

Aðalréttur

Rosmarinkryddaður lambavöðvi - Hunagnsmarineruð kalkúnabringa - Grísa purusteikt 

Meðlæti

Rauðvínssósa - Ofnbakaðar kartöflur - Eplasalat - Kartöflusalat

Rauðlauks-tómatsalat - Rauðkál og baunir - Brauð og smjör ofl.

 

Veislustjórn verður í höndum söngdívu og fyrrum Selamálaráðherra.

 

Forsala miða og pantanir fara fram í Söluskálanum á Hvammstanga, sími 4512465 og þarf að vera lokið að kvöldi miðvikudagsins 26.október, athugið ekki posi.

Miðaverð á uppskeruhátíðina er kr 6000 matur, skemmtun og ball, en ef þú vilt hins vegar bara skella þér á dansleik í syngjandi sveiflu með Geirmundi, sem hefst kl 00:00, þá kostar það litlar 2500 kr.

Enginn posi á staðnum!

 

Eftirfarandi bú eru tilnefnd ræktunarbú ársins 2010 af Hrossaræktarsamtökum V-Hún.

Gauksmýri - Grafarkot - Lækjamót - Stóra Ásgeirsá - Þóreyjarnúpur

 

Athugið að það eru allir velkomnir á þessa frábæru skemmtun .

Þetta er einstakt tækifæri til að hlæja, gráta og hafa gaman.

Sjáumst nefndin.

18.10.2011 09:32

Knapamerki bóklegt




Knapamerkjanámskeið 2011 hjá Neista hefjast með bóklegri kennslu 25. október 2011.
Kenndar verða 2 kennslustundir í einu og áætlað er að klára bóklega hlutann fyrir jól.
Engin bókleg kennsla verður eftir áramót.

Þriðjudagur 25. október

kl. 16.15 - 17.45   knapamerki 2                            
kl. 18.00 - 19.30   knapamerki 1  


Fimmtudagur 27. október

kl. 18.00 - 20.30   knapamerki 3



Verkleg kennsla hefst strax eftir áramótin.




10.10.2011 17:35

Meistaradeild Norðurlands 2012


Í tilkynningu frá aðstandendurm Meistaradeildar Norðurlands 2012 segir að settir hafa verið keppnisdaga deildarinnar í vetur. Þann 25. janúar fer fram úrtaka fyrir þau sex sæti sem laus eru í deildinni.

Keppnisdagar eru eftirfarandi:

  • 22. febrúar - Fjórgangur
  • 7. mars -  Fimmgangur
  • 21. mars - Tölt
  • 4. apríl - Slaktaumatölt og skeið

 

Tólf knapar eru með þátttöku rétt, eftir keppnina síðasta vetur, og eru þeir eftirfarandi.

  • Eyjólfur Þorsteinsson 
  • Árni Björn Pálsson 
  • Bjarni Jónasson 
  • Ólafur Magnússon 
  • Tryggvi Björnsson 
  • Þórarinn Eymundsson 
  • Magnús B Magnússon 
  • Hörður Óli Sæmundarson 
  • Elvar Einarsson 
  • Sölvi Sigurðarson 
  • Erlingur Ingvarsson 
  • Mette Mannseth 

Þessir knapar eru beðnir að staðfesta þátttöku sýna, fyrir 1. nóvember hjá Eyþóri Jónassyni.


04.10.2011 08:54

Knapamerki bóklegt




Knapamerkjanámskeið 2011 hjá Neista hefjast með bóklegri kennslu í 43 viku þ.e. í kringum 24. október 2011.

Ekki er endanlega búið að útfæra kennslustundir og eða kennsludaga, það fer allt eftir þátttökufjölda.
Ef ekki verður næg þátttaka  í 1, 2 eða 3 þá verður það stig ekki kennt í vetur.

Engin bókleg kennsla verður eftir áramót.

Verkleg kennsla hefst fljótlega eftir áramótin.


Hafdís Arnardóttir mun kenna knapamerki 3
og Barbara Dittmar mun kenna 1 og 2.

Þeir sem ætla í knapamerkin í vetur vinsamlegast skráið ykkur á netfang Neista
fyrir sunnudagskvöld 16.10.2011.

Fram þarf að koma nafn og hvaða knapamerki er fyrirhugað að fara í.

Aldurstakmark í knapamerki 1 er 12 ára (fædd 2000).


Birna Tryggvadóttui mun koma í febrúar (og mars) og vera með helgarnámskeið í keppnis fyrir börn/unglinga og fullorðna og almennt fyrir börn/unglinga og fullorðna. Þessi námskeið verða útfærð og auglýst betur þegar nær dregur.



26.09.2011 12:57

Stóðsmölun og stóðréttir


Föstudaginn 30.september verður stóðinu smalað til byggða.
Gestir sem ætla að taka þátt í gleðinni fara af stað frá Hrappstöðum um kl. 10.
Þeir sem ætla að vestan geta mætt í Valdarásrétt um hádegi.

Svo er líka mögnuð sjón að mæta bara síðdegis til að sjá stóðið renna heim í sveitina.
Allir velkomnir  í kaffi í skemmuna á Kolugili !
Um kvöldið er kjörið að fá sér kjötsúpu í Víðigerði
eða hjá Siggu og Jóa á Gauksmýri.

Laugardaginn 1. okt. er stóðið rekið til réttar stundvíslega kl. 10
og hefjast þá réttarstörf.
Í réttinni stendur Kvenfélagið Freyja fyrir happdrætti
og fæst miði með því að versla veitingar af félaginu .
Aðalvinningurinn er folald !!
Í Víðidalstungurétt má jafnan sjá fjölda efnilegra unghrossa.
Uppboð á gæðingsefnum og
Sölusýning verður við réttina um hádegið.

Á laugardagskvöld er dansleikur í Víðihlíð þar sem hljómsveit Geirmundar
heldur uppi sveiflunni eins og honum einum er lagið.

Verið velkomin í Víðidal
í Húnaþingi vestra.



21.09.2011 10:04

Myndir af Laxárdalnum


Veðrið var stórkostlegt sl. laugardag þegar fjöldi fólks fór í stóðsmölun á Laxárdalinn. Fyrir þá sem ekki komust og þá sem fóru og hafa gaman að skoða myndir þá má sjá frábærar myndir sem Jón Sig tók. Einnig eru  nokkrar myndir í albúmi sem fréttaritari tók.




18.09.2011 09:34

Sölusýning


Fyrirhugað er að halda sölusýningu samhliða stóðréttunum í Víðidalstungurétt.
Fram þarf að koma IS-númer, nafn og litur hests og faðir og móðir. Einnig er æskilegt að skrifa stutta lýsingu á hrossinu og hver er umsjónarmaður og símanúmer.

Síðan þarf að setja hrossið í verðflokk: 0-400.000, 400.000-800.000, 800-1.200.000, 1.200.000-1.800.000, 1.800.000+

Skráning er hafin á e-mailið: [email protected]

Skráningargjald er 1.500 kr. og það á leggja inná reikning hrossaræktarsamtakanna 0159-26-992 kt.631188-2579
Síðasti skráningardagur er 25.september 2011.



16.09.2011 13:51

Æskan og hesturinn 2011 á DVD


Sýningin Æskan og hesturinn 2011, sem haldin var í vor, var tekinn upp og er til á DVD-diski.

Þeir sem vilja eignast eintak sendi póst á [email protected] eða á vjmyndir@fjölnet.is einnig er hægt að koma við á snyrtistofunni Táin, Skagfirðingabraut 6, Sauðárkróki.

Diskurinn kostar 2,500 + sendingarkostnað ef þarf að senda. Einnig er hægt að safna saman pöntunum á sama svæði og nýta ef einhver er á ferðinni á milli.


14.09.2011 09:16

Fjör á Landsmótsnefndarfundi á Blönduósi í gærkvöldi


Landsmótsnefndin sem skipuð var af  LH og BÍ fyrir ári og átti að endurskoða alla umgjörð Landsmóts ehf., skilaði lokaskýrslu á vordögum. Hefur hún farið um landið og haldið fundi með heimamönnum og farið yfir skýrsluna. Óhætt er að segja að ákveðin mál hafi ekki farið vel í Norðlendinga sem mættu á fund á Blönduósi í gær.

 

Sveinbjörn Sveinbjörnsson, formaðurnefndarinnar, Stefán Haraldsson, Sigrún Ólafsdóttir og Kristinn Guðnason.


landsmotsnefnd (2)

Það voru þau Sveinbjörn Sveinbjörnsson, formaður nefndarinnar, Stefán Haraldsson, Sigrún Ólafsdóttir og Kristinn Guðnason sem mættu á Blönduós til að skýra frá störfum þeirra í nefndinni og rökstyðja þær afgreiðslur og tillögur sem settar eru fram í skýrslunni. Helsta gagnrýni sem nefndin fékk frá fundarmönnum var tillaga þeirra um að Landsmót ætti að halda tvö skipti sunnanlands á móti einu norðanlands. Það var mikill hiti í mönnum vegna þessa sem mótmæltu þeirri hugmynd harðlega. Vildu flestir hafa fyrirkomulagið óbreytt þ.e. að mótin verði haldin til skiptis á þessum landshlutun. Kom þó fram sú uppástunga úr sal að tvö mót yrðu haldin á Norðurlandi á móti einu á Suðurlandi.

Næsta landsmót verður haldið í Reykjavík á næsta ári og voru fundarmenn efins um að rétt væri að halda mót í borg þar sem kemur skýrt fram í ritgerð Hjörnýjar Snorradóttur, Stefnumótun-Landsmót hestamanna, sem talið er tímamótaverk að því er varðar umfjöllun um landsmótin, að Landsmótin njóti vinsælda eins og þau eru og hafa verið í megin dráttum. Engar stórvægilegar breytingar beri að gera á þeim, heldur lagfæra það sem betur má fara. Helst var talið skynsamlegt af fundarmönnum að mótin yrðu haldin til skiptis á Vindhemamelum og Gaddstaðaflötum enda hafi mikil og kostnaðarsöm uppbygging farið fram á þeim stöðum og þekking til mótahalds til staðar.

Skýrslu Landsmótsnefndar má sjá HÉR


Feykir


09.09.2011 15:15

Landsmótsnefnd á Blönduósi


Tilkynning frá LH


Landsmótsnefndin er sannarlega á ferð og flugi þessa dagana og verður í reiðhöllinni Arnargerði á Blönduósi 13. september kl. 20.00.
 
Stjórn LH hvetur fólk til að mæta og taka þátt í málefnalegum umræðum um málefni landsmótanna og jafnvel koma fram með sniðugar hugmyndir!

 

 



07.09.2011 09:27

Ævintýri norðursins 2011


Stóðsmölun á Laxárdal og Skrapatungurétt.

Laugardaginn 17. september verður hin árlega stóðsmölun á Laxárdal.
Öllum velkomið að taka þátt í þessum einstaka reiðtúr. Lagt verður upp frá Strjúgsstöðum í Langadal kl. 10:00. Áætlað er að koma í Kirkjuskarðsrétt kl. 14 og halda þaðan kl. 16.
Veitingasala verður í Kirkjuskarðs- og Skrapatungurétt.

Aðstaða er til að geyma hesta frá föstudegi yfir á laugardag á Strjúgsstöðum, við
sandnámu (norðan afleggjara).
Þátttakendur eru beðnir að virða að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni.

Laugardagskvöld:
Veitingar fyrir svanga smala og aðra hestamenn á veitingastaðnum Pottinum
Stórdansleikur er með Pöpum í Félagsheimilinu Blönduósi.
Húsið opnað kl. 23:00. Barinn opinn. 18 ára aldurstakmark.

Sunnudaginn 18. september hefjast stóðréttir í Skrapatungurétt kl. 11.
Skemmtileg alíslensk stemmning. Veitingasala í réttarskála.
Hver veit, kannski sér einhver draumahestinn sinn í réttunum!

Ferðamannafjallkóngur verður Valgarður Hilmarsson.

Ekki missa af frábærri skemmtun!

Nánari upplýsingar hjá ferðamannafjallkóngi, sími 893 2059 [email protected]



31.08.2011 10:08

Göngur og réttir á Norðurlandi vestra


Fyrstu fjárréttir haustsins á landinu verðan næstkomandi laugardag, 3. september, en þá verður m.a. réttað í Vestur-Húnavatnssýslu og í Skagafirði. Fyrsta stóðrétt haustsins verður einnig sama dag, í Miðfjarðarrétt í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu.


Laxárdalur 2010 - gestum boðið í smalamennsku.






22.08.2011 09:31

Neistafélagar á mótum


Það fer að styttast í að mótahald sumarsins sé á enda en um helgina var Stórmót hestamanna á Melgerðismelum þangað sem ungu Neistafélagarnir fóru og hins vegar var Íþróttamót Þyts á Hvammstanga þangað sem þau eldri mættu.

Á Melgerðismelum varð Sigurgeir Njáll Bergþórsson 7. á Hátíð frá Blönduósi




Unglingaflokkur A-úrslit
1    Nanna Lind Stefánsdóttir / Vísir frá Árgerði 8,68 
2    Anna Kristín Friðriksdóttir / Glaður frá Grund 8,63 
3    Fanndís Viðarsdóttir / Amanda Vala frá Skriðulandi 8,51 
4    Ólafur Ólafsson Gros / Fjöður frá Kommu 8,42 
5    Katrín Birna Vignisd / Prinsessa frá Garði 8,38 
6    Örn Ævarsson / Askur frá Fellshlíð 8,37 
7    Sigurgeir Njáll Bergþórsson / Hátíð frá Blönduósi 8,29
8    Eyrún Þórsdóttir / Stígur frá Skriðu 8,25
 

Haukur Marian Suska tók þátt í 300 m stökki og varð 5. á Tinnu frá Hvammi 2.

Öll úrslit mótsins má sjá 
hér.


Á Íþróttamóti Þyts varð Sandra Marín í 4. sæti í fjórgangi - 2. flokki á Glym frá Akureyri

Fjórgangur - 2. flokkur



1 Hallfríður Sigurbjörg Óladóttir / Ræll frá Varmalæk 6,77
2 Vigdís Gunnarsdóttir / Sögn frá Lækjamóti 6,50
3 Kolbrún Stella Indriðadóttir / Vottur frá Grafarkoti 6,27
4 Sandra Marin / Glymur frá Akureyri 6,23
5 Íris Sveinbjörnsdóttir / Bráinn frá Akureyri 5,57

og Ragnar Stefánsson varð 3. í Tölt T2 á Saxa frá Sauðanesi

Tölt T2




1 Mette Mannseth / Háttur frá Þúfum 6,50
2 Kolbrún Stella Indriðadóttir / Kátur frá Grafarkoti 6,42
3 Ragnar Stefánsson / Saxi frá Sauðanesi 6,04
4 Sverrir Sigurðsson / Arfur frá Höfðabakka 5,00
5 Þóranna Másdóttir / Hvítserkur frá Gauksmýri 4,17

og hann varð einnig í 3. sæti í 100 m flugskeiði á Maur frá Fornhaga

100 m flugskeið



1.  Tryggvi Björnsson og Dynfari frá Steinnesi tími: 7,64
2.  Þórarinn Eymundsson og Bragur frá Bjarnastöðum tími: 7,65
3.  Ragnar Stefánsson og Maur frá Fornhaga 2 tími: 7,84

Önnur úrslit mótsins má sjá á heimastíðu Þyts.

Til hamingju öll.

15.08.2011 18:09

Opna íþróttamót Þyts


Verður haldið dagana 20.-21. ágúst 2011 á Kirkjuhvammsvelli á Hvammstanga.


Greinar:

4-gangur og tölt 1.flokkur
4-gangur og tölt 2.flokkur
4-gangur og tölt ungmennaflokkur
4-gangur og tölt unglingaflokkur
4-gangur og tölt barnaflokkur

5-gangur 1.flokkur

T2/slaktaumatölt 1.flokkur

gæðingaskeið

100 metra skeið

300 metra Brokk

300 metra Stökk

Skráning fer fram á [email protected] og henni lýkur á miðnætti þriðjudaginn 16.ágúst, við skráningu skal koma fram IS númer hests, kennitala knapa, í hvaða grein og uppá hvora höndina.
Fyrsta skráning kostar 2500 kr. næsta skráning 1500 kr. 1000 kr. fyrir börn og unglinga. Borga skal skráningargjöld inn á reikning 0159-26-001081 kt. 550180-0499 áður en mótið hefst.
Mótanefnd áskilar sér rétt til þess að fella niður greinar ef ekki næst næg þátttaka.


Mótanefnd :)

Flettingar í dag: 57
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 1234
Gestir í gær: 398
Samtals flettingar: 443537
Samtals gestir: 53250
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 01:05:57

Vafraðu um

Eldra efni

Um hestamannafélagið Neista

Nafn:

Hestamannafélagið Neisti

Afmælisdagur:

1943

Heimilisfang:

540 Blönduós

Staðsetning:

Blönduós

Um:

Hestamannafélagið Neisti hefur sitt aðsetur á Blönduósi, en er félag hestamanna í Austur-Húnavatnssýslu.

Kennitala:

480269-7139

Tenglar

clockhere