11.06.2012 23:14

Völlurinn lokaður .....


Ekki verður hægt að æfa á vellinum


þriðjudag eftir kl. 18.00
og föstudag eftir kl. 19.00


þar sem verið er að gera hann kláran fyrir félagsmótið
sem verður á laugardag.

Mótanefnd


10.06.2012 23:12

Félagsmót Neista og úrtaka fyrir Landsmót


Félagsmót Neista og

úrtaka fyrir Landsmót

verður haldið á Blönduósvelli
laugardaginn 16. júní  kl. 10.00.


Neisti á rétt á að senda 2 hesta til keppni á Landsmót í hverjum flokki (ekki pollaflokkur).  Einkunnir úr forkeppni gilda til þátttöku á Landsmóti.

Keppt verður í tölti opinn flokkur, A og B flokki gæðinga, flokki polla, barna, unglinga og ungmenna.  Einnig verður keppt í 100 m skeiði.
Ef ekki er næg þátttaka í einhverri keppnisgrein áskilur mótanefnd sér rétt til að fella niður þá grein. 

Skráningar á mótið skulu berast á netfangið
[email protected] fyrir kl. 21.00 þriðjudagskvöldið 12. júní.

Skráningargjöld verða 2.000 kr fyrir fyrstu skráningu, 1.500 fyrir aðra skráningu og 1.000 kr eftir það. Börn og unglingar borga 800 kr.

Við skráningu þarf að koma fram IS-númer hests, kennitala knapa og keppnisgrein.

Skráningargjald  leggist inn á reikningsnúmer 0307-26-055624, kt. 480269-7139  sama dag og skráð er og þar þarf að koma fram fyrir hvaða hesta er verið að borga og senda kvittun á áðurnefnt netfang.  

Ath.
Þar sem dómarar eru ekki allir íþróttadómarar er töltkeppnin ekki lögleg til stigasöfnunar til Landsmóts.

09.06.2012 23:52

Frábær kvennareið


Þær voru hressar konurnar 40 sem mættu við Reiðhöllina um miðjan dag í dag til að gera sér glaðan dag á hestbaki. Þær Gulla, Eva, Edda og Guðrún áttu veg og vanda að skiplagningu ferðarinnar og fórst þeim það vel úr hendi. Gulla hjá Hestaleigunni Galsa var búin að taka reiðleiðina út og var hún fararstjóri í ferðinni.

Eva og Gulla

Farin var stór og góður hringur með mörgum stoppum .....




og endað í Reiðhöllinni í grilli sem strákarnir Guðmundur, Guðmundur og Jón Ragnar sáu um.





Frábær dagur; frábærar konur, frábært veður
, frábær reiðleið, frábær matur og frábærir grillarar.


06.06.2012 18:02

Uppskeruhátíð nr. 2


Það er tími uppskeruhátíða þessa dagana og sl. mánudag hittust þeir sem voru í knapamerkjum fullorðinna í vetur og fóru saman í góðan útreiðatúr í tilefni að flestir voru búnir í prófum og stóðust þau með prýði.
 
Farinn var góður útreiðatúr en eins og gengur gátu ekki allir mætt......


grillað var og skírteini afhent......


Hér eru þau Helga Thoroddsen, prófdómari, Sigríður B. Aadnegard, Guðmundur Sigfússon og Hafdís Arnardóttir, kennari.
Þau Sigríður og Guðmundur stóðu sig frábærlega í knapamerki 3 og fengu 9,0 í verklegu prófi.



Magnús Ólafsson, Selma Svavarsdóttir og Hafdís Arnardóttir.

Allir aðrir stóðu sig frábærlega líka og hér tekur aldursforseti knapamerkjanna við sínu skírteini en Magnús Ólafsson lauk einnig prófi í knapamerki 3.
Til hamingju öll með prófin ykkar.

 


03.06.2012 22:32

Uppskeruhátíð


Það var aldeilis flott veður sem æskulýðurinn og áhangendur þeirra fengu í dag þegar þau héldu uppskeruhátíðina sína. Það var góður hópur sem mætti við Reiðhöllina kl. 14. með hesta sína og riðu upp í Kúagirðingu undir fararstjórn Jóns Ragnars Gíslasonar hjá Hestaleigunni Galsa. Frábær ferð og gaman að sjá hve dugleg þau eru og vel ríðandi.




Eftir reiðtúrinn var grillað og skírteini afhent og öll fengu þau gjöf fyrir hve frábærlega þau eru búin að standa sig í vetur.  Flottir krakkar, takk takk fyrir veturinn og sjáumst vonandi aftur næsta vetur.

 

Eins og gengur gátu ekki allir krakkarnir mætt í dag en á námskeiðum hjá Neista í vetur voru 38 krakkar, 8 af þeim voru í knapamerkjum og luku þau prófum úr  knapamerkjum 1, 2 og 3.

Æskulýðsnefnd

03.06.2012 21:43

Blær frá Miðsitju


 

Blær tekur á móti hryssum í Gröf í Víðidal eftir landsmót.

Blær er með 8,65 fyrir hæfileika og 8,48 í aðaleinkunn.

Faðir hans er Arður frá Brautarholti og móðir hans er Björk frá Hólum.


Verð pr folatoll er 90.000 með girðingargjaldi, hagagöngu og virðisaukaskatti.


Upplýsingar hjá Tryggva í síma 898-1057.



31.05.2012 20:40

Frá Æskulýðsnefnd


Uppskeruhátíð hjá krökkunum sem voru á námskeiðum hjá Neista
í vetur verður sunnudaginn 3. júní.


Mæting við Reiðhöllina Arnargerði kl. 14.00.
Farið verður í reiðtúr og grillað á eftir.





Æskulýðsnefnd

28.05.2012 09:58

Kvennareið 2012





Hin árlega kvennareið verður farin laugardaginn 9.júní næstkomandi kl.15.00. Nefndin velur góða og skemmtilega reiðleið (æfingar standa yfir) og áætlum við að enda hana í Reiðhöllinni á Blönduósi í grilli og gríni. Skráning og nánari upplýsingar eru hjá Guðrúnu Kj.netf. [email protected] eða gsm.894-7543 Skráning þarf að berast fyrir þriðjudaginn 5. júní n.k. svo við getum gert ráðstafanir varðandi matinn. Konur! fjölmennum nú og eigum góðan dag saman.


21.05.2012 07:31

Landsmót hestamanna 2012 - vaktir hestamannafélaganna


Hestamenn athugið!

Vaktir hestamannafélaganna á Landsmóti 2012 eru með sama móti og áður.

Helstu störf á þeim vöktum eru eftirfarandi:

Hliðvarsla
Aðstoð við fótaskoðun
Innkomustjórnun
Upplýsingamiðstöð
Aðstoð á skrifstofu
Ýmis störf á svæði
Aukavaktir

Starfsmenn vaktana skulu hafa náð 18.ára aldri.

Starfsmenn hafa aðgang að mótinu á meðan á vöktum þeirra stendur en fá ekki almennan aðgöngumiða. Einnig má nefna að starfsmönnum er skaffaður matur á meðan á vakt stendur.

Þeir sem hafa áhuga á því að starfa á þessum vöktum eru beðnir um að hafa samband í gegnum netfangið [email protected] við fyrsta tækifæri og gildir þar reglan að fyrstur kemur fyrstur fær.

Mikilvægt er að senda Nafn, kennitölu, nafn hestamannafélags og símanúmer. Mér til aðstoðar verður Ragna Rós Bjarkadóttir og munum við hafa samband í framhaldinu til þess að finna útúr því hvað hentar hverjum og hvernær.

Þessar vaktir tókust mjög vel á síðasta móti og vonumst við til að sunnlendingar standi sig jafn vel og norðlendingar gerðu á síðasta móti. Koma svo!

Með vissu um góðar undirtektir,

Hugrún Ósk Ólafsdóttir
Mannauðsstjóri Landsmóts hestamanna

 ________________________

21.05.2012 07:29

Kynbótasýning á Hvammstanga 2012



Kynbótasýning hrossa hefst á Hvammstanga þriðjudaginn 22. maí kl 14.00. Skráð eru um 90 hross á sýninguna. Dæmt verður þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag og yfirlitssýning hefst kl 9.00 á föstudag 25. maí.


17.05.2012 12:40

Hesteigendafélagið - fundur


Fundur verður haldinn í Reiðhöllinni Arnargerði
á vegum Hesteigendafélags Blönduóss,

fimmtudaginn 17. maí kl. 20.30.

Fundarefni, kynnt verður landmat Blönduóssbæjar á beitarhólfum. Fundarmenn hafi með sér landnúmer sín.

Stjórnin



08.05.2012 21:21

Kynbótasýning hrossa á Hvammstanga


Kynbótasýning hrossa hefst á Hvammstanga miðvikudaginn 23. maí 2012

Dómar verða miðvikudag og fimmtudag og yfirlitssýning á föstudegi. Þetta getur þó breyst ef skráningar verða ekki í samræmi við áætlanir.

Best er að senda skráningar á tölvupósti - [email protected]  - en einnig má hringja í síma 451 -2602.
Síðasti skráningardagur er föstudagur 18. maí.

Við skráningu þurfa að koma fram upplýsingar um hrossið, hvort hrossið á að fara í fullnaðardóm eða bara byggingu eða hæfileika, nafn og kennitala sýnanda, nafn og kennitala þess sem greiðir reikning og óskir um tíma ef einhverjar eru.

Nafn og kennitala þess sem reikningur skal skrifast á verður að fylgja skráningu !

Gjald er 18.500 kr fyrir fullnaðardóm en 13.500 kr ef bara á að dæma annað hvort byggingu eða hæfileika.
Greiðist inn á banka 307-26-2650 (kt 471101-2650) samhliða skráningu og senda kvittun á [email protected]
með upplýsingum fyrir hvaða hross er verið að greiða.

Kynnið ykkur vel reglur um járningar, spattmyndir, dna ofl .

Úr öllum stóðhestum sem koma til dóms svo og foreldrum þeirra þarf að vera búið að taka dna-sýni til staðfestingar á ætterni !!
Auk þess þarf að vera búið að spattmynda alla stóðhesta 5 vetra og eldri og taka úr þeim blóðsýni.

Nánari upplýsingar og tímasetningar á www.rhs.is þegar nær dregur.

Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda

01.05.2012 20:30

Skemmtileg æskulýðssýning


Það var gaman á sýningunni hjá krökkunum í dag en um 30 börn á öllum aldri tóku þátt í henni. Flest hafa þau verið á námskeiðum hjá hestamannafélaginu í vetur. Kennarar í vetur voru Barbara Dittmar, Hafdís Arnardóttir og Ragnhildur Haraldsdóttir.


Fyrst var þrautabraut en flest þessara krakka hafa keppt í þrautabraut og er þetta því nokkuð liðlegt hjá þeim og skemmtileg. Þau voru svo mörg að það varð að taka 2 myndir af hópnum ....



Theodóra, Una, Þórdís, Hlíðar og Bjartmar......


Jenný, Ásdís Brynja, Lara, Iðunn, Lilja og Ingibjörg


Prinsessurnar alltaf jafn sætar og duglegar og þeim leiðist nú ekki þegar foreldrarnir hlaupa með þær nokkra hringi í höllinni. Alltaf mikið gaman hjá þeim.

Salka Kristín, Inga Rós, Dögun og Sunna Margrét.


Þessi flottu ungmenni, Fimm fræknu, sýndu okkur gangtegundir, krossgang og framfótasnúning, virkilega gaman og flott hjá þeim enda öll búin með knapamerki 3.


Haukur Marian, Hákon Ari, Sigurgeir Njáll, Hrafnhildur og Friðrún Fanný.


Blátt/rautt gerðu flotta mynsturreið sem Barbara Dittmar útfærði. Þau voru að gera þetta í fyrsta skiptið og hafa verið að æfa þetta uppá síðkastið. Sum þeirra hafa ekki verið á námskeiði í Reiðhöllinni fyrr en í vetur svo margt nýtt en þau gerðu þetta með glæsibrag.


Íris, Ásdís, Guðbjörg, Alma, Sóley, Helga María, Tanja og Hreinn.


Sigurður Bjarni, Sigurgeir Njáll, Lilja María og Haukur Marian fengu öll viðurkenningu fyrir framför og góðan árangur í reiðmennsku á árinu 2011. Þau fóru fyrir hönd Neista á Landsmótið á Vinheimamelum og stóðu sig með prýði, einnig tóku þau þátt í mörgum mótum á sl. ári og stóðu sig afar vel í alla staði. Til hamingju með þetta.



Með allt á hreinu hét hópurinn sem fór flotta mynsturreið hannaða af Barböru Dittmar. Aldeilis skemmtileg og flott hjá þeim og þau ótrúlega fljót að ná þessu þó það hafi ekki verið margar æfingarnar hjá þeim en greinilega vanir knapar þar á ferð sem hafa gert þetta áður. Virkilega gaman.

Friðrún, Sigurgeir, Hrafnhildur, Magnea, Sigurður, Hákon, Harpa Hrönn og Sólrún.

Það er gaman að sjá hvað krökkunum fer fram á hverjum vetri og verða betri og betri reiðmenn. Við megum vera stolt af þessum krökkum og hversu mikið og gott starf er unnið á hverjum vetri í æskulýðsstarfi hjá hestamannafélaginu. Takk takk fyrir frábæra sýningu og skemmtileg samstarf í vetur.

Eftir sýninguna var kaffi og "með því"  og var fjölmenni, gott og gaman að geta átt notalega stund saman eftir svona skemmtilega sýningu. 




Magnús Ólafsson, Magnús Ólafsson yngri og Ólafur Magnússon

Æskulýðsnefndin þakkar öllum þeim sem að þessari sýningu kom á einn eða annan hátt fyrir, án ykkar hefði þessi sýning ekki orðið að veruleika. Gaman að geta átt frábæran og eftirminnilegan dag og fengið að njóta þess að horfa á frábæra krakka á frábærri sýningu. Takk fyrir öll.



27.04.2012 08:43

Æskulýðssýning Hestamannafélagsins Neista


Þriðjudaginn 1. maí kl. 17:00
verður sýning á vegum Æskulýðsnefndar Neista
í reiðhöllinni Arnargerði.




Fram koma um 30 krakkar á öllum aldri
sem hafa verið dugleg á námskeiðum í vetur.


Hvetjum alla til að koma og sjá þessa fræbæru krakka.

Aðgangseyrir 500 kr. (ekki tekið við kortum) fyrir 12 ára og eldri.
Innifalið í aðgangseyri er kaffi og með því.


Hlökkum til að sjá ykkur.

kveðja,
Æskulýðsnefnd Neista

20.04.2012 14:24

Upptaka á söluhrossum


Fyrirhugað er að stofna heimasíðu fyrir söluhross á Norðurlandi vestra. Hrossaræktarsamtökin á Norðurlandi vestra hafa samið við Elku Guðmundsdóttur um að sjá um og reka síðuna
www.icehorse.is

Elka verður stödd í Húnavatnssýslun sunnudaginn 22.apríl nk. til að taka upp söluhross á myndbönd og taka ljósmyndir.

Félagar í hrossaræktarsamtökunum geta mætt til myndatöku á eftirtöldum stöðum og tíma:

Blönduósi   kl. 10:00-14:00

Hvammstanga kl 15:00-19:00

Nánari upplýsingar gefa formenn samtakana Jóhann Albertsson s 869-7992 og Magnús Jósefsson s.897-3486.


Flettingar í dag: 403
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 1125
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 434381
Samtals gestir: 51280
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 12:33:58

Vafraðu um

Eldra efni

Um hestamannafélagið Neista

Nafn:

Hestamannafélagið Neisti

Afmælisdagur:

1943

Heimilisfang:

540 Blönduós

Staðsetning:

Blönduós

Um:

Hestamannafélagið Neisti hefur sitt aðsetur á Blönduósi, en er félag hestamanna í Austur-Húnavatnssýslu.

Kennitala:

480269-7139

Tenglar

clockhere